logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
10 ráð til að nærast betur
24 / 08 /2021
deila
hollt og gott í kroppinn

Til þess að finna jafnvægi í lífinu þarf að huga að næringu, bæði frumnæringu og því sem við setjum á diskinn. Frumnæring er allt það sem nærir okkur annað en matur og felst í okkar daglegu athöfnum. Það er okkur lífsnauðsynlegt að staldra við og endurskoða samskipti, atvinnu, hreyfingu, andlegt jafnvægi og fleira. Við vanmetum oft þessa þætti, teljum ekki til næringar og veitum því sjaldnast athygli hvernig okkur líður.

Ef við viljum bæta heilsuna þurfum við að skoða alla þætti sem hafa áhrif á hana og meta hvar við erum í ójafnvægi. Það er nefnilega oftast þannig að ef við erum í ójafnvægi á einu ,,sviði” smitar það yfir á annað og okkur líður ekki nóg vel andlega og líkamlega. Það er t.d. þekkt af ef þú ert í sambandi sem gengur á afturfótunum eða óánægð/ur í vinnunni er líklegra að þú huggir þig með óhollum mat.

Með því að vinna í þeim þáttum sem eru raunverulega að hafa neikvæð áhrif á heilsu okkar finnum við smám saman jafnvægi á öllum vígstöðvum. Þó svo að frumnæringin sé mikilvægust þá er að sjálfsögðu líka mikilvægt að velja góða næringu á diskinn.

Hér eru 10 atriði sem geta auðveldað þér að borða betur

  1. Borðum til að nærast vel -Hlustum á líkamann. Hvenær líður okkur vel og hvenær illa eftir máltíð? Er mögulega eitthvað sem fer illa í þig? Þá er líkaminn þinn mögulega að segja þér eitthvað.
  2. Veljum fjölbreytta fæðu -í öllum regnbogans litum. Gamla góða reglan um 5 ávexti/grænmeti á dag á vel við.
  3. M&M- borðum meira grænmeti og minni sykur.
  4. Borðum mat - en ekki matarlíki. Var fæðan framleidd í verksmiðju eða kemur hún beint úr náttúrunni?
  5. Veljum hreina fæðu sem ofast-grænmeti, ávexti, kjöt, fisk, ber, fræ og hnetur.
  6. Skoðum innihaldslýsingu -því færri innihaldsefni því betra. Innihaldsefnum er einnig raðað í röð eftir magni, ef sykur er framarlega í innihaldslýsingunni er mikið af honum.
  7. 90/10 reglan- Heilbrigðar venjur snúast um það sem þú borðar 90% af tímanum en ekki þessi 10% sem þú leyfir þér.
  8. Forðumst öfga- Það er betra að breyta venjum smám saman og gera varanlegar breytingar til góðs.
  9. Engin boð og bönn- Allt er gott hófi.
  10. Drekkum vatn- Vatnsskortur getur haft ótal óækilegar aukaverkanir og áhrif á starfsemi líkamans. Hann þarf vatn til að halda sér gangandi.