logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
365 Himnastigar
06 / 01 /2023
deila
Himnastiginn í Kópavogi, 365 Himnastigar

Árið 2022 ákvað ég að skipta um gír tengt hreyfingu. Í stað þess að æfa af krafti suma daga og ekkert aðra daga eins og ég hafði gert ákvað ég að hreyfa mig daglega í eitt ár eða í 365 daga. Ég ákvað að hreyfa mig og æfa til þess að bæta heilsu mína líkamlega og andlega en ekki eingöngu til þess að verða hraðari, sterkari og hraustari eins og ég hafði lagt áherslu á áður.

Ég tók þá ákvörðun að allt sem væri hreyfing myndi telja, t.d. göngutúr, moka snjó af krafti, spila fótbolta með börnunum, æfingar, lyftingar, golf, gönguskíði, fjallganga o.s.frv. Mig langaði að hafa hreyfinguna fjölbreytta og a.m.k. 30 mínútur daglega.

Þegar dagur 365 í hreyfiáskoruninni nálgaðist fann ég að mig langaði að gera eitthvað skemmtilegt á þessum degi til þess að fagna árangrinum og hvetja aðra til þess að hreyfa sig. Eftir smá umhugsun ákvað ég að safna 365 ferðum í Himnastiganum í Kópavogi á lokadegi áskorunarinnar 2.janúar með öllum þeim sem vildu koma og vera með mér til þess að vekja athygli á mikilvægi daglegrar hreyfingar og til þess að hvetja fólk til þess að fara út að hreyfa sig óháð veðri.

Himnastiginn: Tröppurnar eru 207 talsins og vegalengdin upp er um 350 m með sléttum á milli með hækkun upp á 53 m.

Ég gerði Facebook viðburð en átti aldrei von á þeim geggjuðu viðtökum sem fylgdu í kjölfarið. Hátt í 500 manns sýndu áhuga og merktu við að þeir væru áhugsamir.

365 Himnastigar urðu að 1000

Milli kl.06-16 söfnuðust 142 ferðir (sem fólk annað hvort sendi mér eða setti inn á Facebook viðburðinn 365 Himnastigar). Ég fór á þessum tíma sjálf 10 ferðir gangandi í tveimur hollum og tók myndir af fólki og spjallað við dugnaðarforkana.

Ég mætti svo aftur í Himnastigann kl.16 og hóf talningu eftir hverja ferð sem var farin. Klukkan 17 voru komnar 250 ferðir og því ljóst að við færum létt með markmiðið því að ég vissi að tveir hlaupahópar væru á leiðinni. Þá fór fólk að streyma að og fyrir klukkan 18 vorum við búin að ná markmiðinu. Þá ákvað ég að stefna á 500 ferðir og áður en ég vissi af var búið að ná því markmiði líka og ennþá fullt af fólki í Himnastiganum þannig að við hækkuðum markmiðið upp í 1000 ferðir. Á þessum tímapunkti voru að minnsta kosti 4 hlaupahópar í stiganum auk fullt af einstaklingum og fjölskyldum 😉

Það gekk hratt og vel upp í c.a. 800 ferðir en svo fækkaði og fækkaði í stiganum og það gekk mjög því mjög hægt að fara úr 800 ferðum upp í 900 ferðir. Ég fór heim þegar komnar voru 902 ferðir (rétt fyrir kl.21) og setti hvatningarpóst í FB hópinn og bað fólk að senda mér ef það færi í Himnastigann eftir það enda stóð viðburðurinn til kl.23. Þessir dugnaðarforkar sem mættu eftir að ég fór heim fóru rúmlega 100 ferðir samtals og við náðum því yfir 1000 ferðum.

Það er skemmtilegt að segja frá því að rétt fyrir kl.23 hrekk ég við þegar snjóbolta er kastað í gluggann heima og ég sé brosandi andlit mágkonu minnar fyrir utan. Þegar ég opna fyrir henni segir hún mér að hún hafi verið að klára 5 ferðir í Himnastiganum en rétt áður var ég einmitt búin að taka saman að komnar væru 995 ferðir. Þá voru komnar 1000 ferðir! Það týndust svo inn nokkur skilaboð til viðbótar og áskorunin endaði í rétt rúmlega 1020 ferðum. Af þeim fór ég sjálf 18 ferðir en þótti þó lang skemmtilegast að peppa alla sem mættu.

Hér má sjá stutt myndband af deginum og stemmningunni.

Þetta var alveg ótrúlega skemmtilegur dagur og hægt er að sjá fleiri myndir og umræður á Instagram og í Facebook viðburðinum.

Mig langar að lokum að þakka öllum sem mættu og tóku þátt. Þið eruð algjörir snillingar. Þvílíkt góð stemmning og mér finnst líklegt að þetta verði árlegur viðburður héðan í frá!