Ef þig langar að taka stutta æfingu í sumarfríinu þá eru hér nokkrar hugmyndir að æfingum sem hægt er að gera hvar og hvenær sem er og krefjast ekki mikils búnaðar.
Æfingarnar má einnig finna á Instagram og þaðan er hægt að vista þær eða deila með öðrum.
Æfingarnar eru tilvaldar til þess að gera með fjölskyldu og/eða vinum á ferðalaginu eða heima í sumarfríinu.
Hugmynd 1
Uppáhalds æfingarnar mínar eru þegar unnið er í stuttum lotum með smá hvíld á milli. Þessi æfing er einimtt þannig, við vinnum 6 sinnum í 3 mínútur með eina mínútu í hvíld á milli. Þrjár mismunandi ,,stöðvar" og farið er tvo hringi þar sem reynt er að gera eins margar endurtekningar og mögulegt er á hverjum þremur mínútum.
Hugmynd 2
Í þessari æfingu vinna tveir saman að því að safna endurtekningum (samtals 100 af hverri æfingu), einn vinnur í einu á meðan hinn hvílir. Á hverri mínútu er ,,truflun", en þá þarf að stoppa og gera einn samtaka (syncro) burpees, svo er haldið áfram að safna æfingum þangað til að búið er að klára allar æfingarnar.
Hugmynd 3
Í þessari æfingu er farið þrisvar sinnum í gegnum 5 stöðvar og svo mínúta hvíld. Reynið að safna eins mörgum endurtekningum og þið getið í hverri umferð. Hægt er að skipta út æfingum að vild.
Hugmynd 4
Þessi æfing er styrktaræfing sem er t.d. hægt að gera heima eða á hótelgymmi. Gerðu hreyfingarnar hægt og vandlega. Stilltu klukku sem lætur vita á 2 mínútna fresti í 30 mínútur. Gerðu fystu æfinguna: 16x Arnold press með einu handlóði eða tveimur. Haltu handlóðum saman fyrir framan andlit, olnbogar í 90° og vísa niður, færið svo lóðin sundur ennþá með olnboga í 90° þannig að olnbogar vísa nú til hliðar og pressaðu svo lóðunum upp fyrir höfuð og réttu úr handleggjunum. Farðu svo öfuga leið niður.
Hvíldu svo þar til að klukkan hringir, en þá gerir þú næstu æfingu: 16x Romainian deadlift (réttstöðulyfta með beina fætur) og þegar klukkan hringir í þriðja sinn framkvæmir þú 8 há kassahopp til að æfa sprengikraft. Þetta er svo allt endurtekið 5 sinnum eða í 30 mínútur.
Hugmynd 5
Fjórar mínútur, fjórar umferðir, A, B, A, B. Teljið endurtekningar og reynið að gera jafn margar endurtekningar í seinna skiptið.
Hugmynd 6
Ferða- eða heimaútgáfa af afmælisæfingunni minni Erla góða Erla en ég á einmitt afmæli í næstu viku og ætla að taka þessa æfingu þá.
Unnið er sex sinnum í 3 mínútur í senn. Fyrst er svo kallað buy in (400m hlaup eða 200 sipp) og svo framkvæmið þið eins margar endurtekningar og mögulegt er af æfingunni á tímanum sem eftir er af þremur mínútum.
Hugmynd 7
Stutt en krefjandi æfing! Unnið er í eina mínútu og svo hvílt í eina mínútu. Fyrst gerir þú 60 tvöföld sipp (eða einföld ef þú getur ekki tvöföld) og svo eins margar armbeygjur og þú getur á tímanum sem er eftir af mínútunni. Þá tekur við 1 mínútna hvíld og þetta er svo endurtekið 6 sinnum.
GÓÐA SKEMMTUN!
Æfingarnar að ofan finnur þú allar á Instagram og einnig æfingar án áhalda.