logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
Að setja sér markmið
03 / 05 /2021
deila
SMART markmiðasetning

Til þess að vita hvert þú vilt stefna, þ.e. hvaða þætti heilsunnar þú vilt bæta er nauðsynlegt að setja sér markmið. Heilsutengd markmið geta verið allt sem hefur góð áhrif á þína heilsu. Svefn, hreyfing, mataræði, samvera, starfsframi eða annað.

Settu þér markmið sem vekja upp góðar tilfinningar og þér þykja skemmtileg.

Markmiðin þurfa að vera SMART.

Skýr/sértæk.

Markmið þurfa að vera skýr og greinileg en ekki óljós og almenn. Ég mæli með að skrifa markmiðin niður og segja öðrum frá þeim því þá eru mun meiri líkur á því að þú vinnir í þeim. Hefur þú nú þegar þá styrkleika sem nauðsynlegir eru til að ná markmiðinu, ef ekki hvernig getur þú öðlast þá? Þetta geta verið bæði innri styrkleikar og ytri en með ytri styrkleikum er átt við styðjandi þætti í aðstæðum þínum og umhverfi.

Mælanleg

Markmið þurfa að vera mælanleg t.d. í tíma , gæðum, fjölda eða magni. Hvað þarf til að markmiðið náist?

Aðgerðaráætlun

Það er ekki nóg að setja sér markmið og láta þar staðar numið heldur verður þú að útbúa áætlun um hvernig þú ætlir að ná markmiðinu. Reyndu að skilgreina markmiðið eins nákvæmlega og hægt er. Hvað viltu gera, hvernig vilt þú framkvæma það eða hvernig viltu að þér líði? Aðgerðaráætlun er eins og fjársjóðskort til að vísa þér á fjársjóðinn þinn (markmiðið). Án fjársjóðskorts er erfitt að finna fjársjóð.

Raunhæf

Markmiðið þarf að vera mátulega stórt eða umfangsmikið og raunhæft. Það verður að vera á þínu valdi að ná markmiðinu. Það þýðir að það sé mögulegt að ná markmiðinu. Þú ert sjálf/ur ábyrgur fyrir breytingunum. Ef markmiðið er of viðamikið er gott að skipta því niður í smærri markmið sem er auðveldara að ná og e.t.v. má skipta þeim í skammtíma og langtímamarkmið.

Tímasett

Tímamörk hvetja okkur til að ná markmiðum. Það er því mikilvægt er að skrá niður hvenær er áætlað að markmiðinu sé náð. Hvernig veistu hvenær þú hefur náð markmiðinu? Hvað muntu sjá, heyra og hvernig líður þér þegar þú hefur náð markmiðinu?