Þegar ég á banana sem eru komnir á síðasta snúning skelli ég í bananabrauð. Það er ótrúlega einfalt, sjúklega gott og ekki skemmir fyrir að það er án sykurs, hveitis og gers. Ég verð þó að viðurkenna að ég er algjör slumpari og baka oftast eftir minni en brauðið klikkar samt aldrei (þannig að ekki hafa áhyggjur af því þó fylgir ekki nákvæmlega uppskriftinni). Til þess að breyta til má líka leika sér með uppskriftina og bæta í hana t.d. kókosmjöli, fræjum og jafnvel dökkum súkkulaðibitum.
Þar sem að þetta verða oft nokkur lítil brauð, sker ég oft niður það sem ekki klárast samdægurs og set í frysti. Þá á ég alltaf tilbúnar sneiðar til þess að skella í brauðristina eða taka með í nesti. Ég hef t.d. tekið bananabrauðið með sem nesti í hlaupaferðir, vinnuna og í flug.
Bananabrauð HeilsuErlu (sykur-, ger- og hveitilaust)
Hráefni
- 4-5 bananar (helst vel þroskaðir)
- 6 dl tröllhafrar
- 3 dl eggjahvítur
- 2-3 egg
- 1 msk kanill
- 1-2 tsk vanilludropar
- 1 tsk lyftiduft (sleppi stundum)
- 1 msk stevía ,sykur" (valfrjálst)
- Einnig hægt að sæta með öðru sætuefni, döðlum eða jafnvel bara sleppa alveg ef bananar eru mjög þroskaðir.
Aðferð
1. Setjið öll hráefnin í blandara eða hrærivél og hrærið þangað til allt hefur blandast. Fyrir meiri létteika má þeyta egg og eggjahvítur með sætunni aðeins fyrst og bæta svo restinni af hráefnunum út í. 2. Hellið í form, fjöldi fer eftir stærð en ég næ yfirleitt 2-3 litlum bananabrauðum (í álformum) úr þessari uppskrift. 3. Bakið við 180°C í c.a 45 mínútur. 4. Látið kólna í smá stund og njótið með uppáhalds álegginu ykkar eða eintómt!