logo
HeilsuErla
Heilsumolar
Heilsumoli með Annie Mist
29 / 04 /2021
deila
Annie Mist og fjölskylda í sundi

Annie Mist þarf vart að kynna enda heimsþekkt fyrir framúrskarandi árangur í CrossFit. Ég var svo lánsöm að fá að keppa við hana og aðrar ofurkonur í upphafi ferils hennar (fyrir 10 árum) en því er nú líklega best lýst þannig að ég var enn að klára æfingarnar (wodin) þegar hún var komin í viðtöl við fréttamenn! Hún er ekki bara frábær íþróttakona heldur dásamleg móðir og ég er svo heppin að hafa fengið að fylgjast aðeins með litlu fjölskyldunni í sundtímum hjá Ungbarnasundi Erlu. Annie Mist tók vel í að svara nokkrum spurningum og fræða ykkur lesendur í leiðinni.

Hver er Annie Mist?

Atvinnumaður í CrossFit í 10 ár, tvisvar sinnum Fittest on Earth, móðir.

Hvað er góð heilsa fyrir þér?

Hafa góða orku yfir daginn, geta gert og tekið þátt í öllu sem ég hef áhuga á því að gera.

Hefur sýn þín á heilsu breyst eftir að þú varst móðir? 

Held ég hafi alltaf haft svipaða sýn á það en kannski það helsta sem hefur breyst er að ég hugsa um það hvernig ég vil vera þegar ég er eldri líka. Eins og er þá er ég atvinnu íþróttakona en þegar ég verð eldri þá þarf ég kannski ekki að lyfta eins miklu eða hlaupa eins hratt – en ég vil geta gert það allt saman verkjalaust.

Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til þess að lifa heilbrigðu lífi?

Drekka mikið af vatni, borða reglulega yfir daginn og hreyfa mig eitthvað á hverjum degi.

Hvað myndir þú ráðleggja 10 árum yngri þér?

Þegar kemur að heilsu þá ekki að taka líkamanum mínum sem sjálfsögðum hlut. Þegar kemur að lífinu, álit annara skiptir ekki máli heldur hvaða álit þú hefur á þér.

Hver er uppáhalds morgunmaturinn þinn og afhverju? Viltu deila uppskrift með lesendum?

Grænt súper powder, spæld egg og hafragrautur gerður með möndlumjólk með rúsínum og söltuðum möndlum. Ég bara verð ekki leið á þessu, fer fram úr til að borða og er uppáhalds máltíðin mín á daginn.

Áttu þér uppáhalds mottó/quote?

"Somewhere behind the athlete you've become and the hours of practice and the coaches who have pushed you is a little girl who fell in love with the game and never looked back... play for her."