logo
HeilsuErla
Heilsumolar
Heilsumoli með Ásdísi Hjálmsdóttur Annerud
12 / 05 /2021
deila
Ásdís Hjálms

Ásdís Hjálmsdóttir Annerud hefur nýlega lagt spjótið á hilluna eftir langan og farsælan íþróttaferil. Hún keppti í spjótkasti á Ólympíuleikunum árin 2008, 2012 og 2016 og mörgum Evrópu- og Heimsmeistaramótum. Ásdís er ekki bara mögnuð íþróttakona heldur er hún hugarfarsþjálfari fyrir metnaðarfullt íþróttafólk sem vill ná hámarksárangri. Finna má upplýsingar um fyrirlestra og fleira á heimasíðu hennar og á Instagram.

Ásdís var meira en til í að svara nokkrum spurningum enda hefur hún brennandi áhuga á andlegri þjálfun, næringarþjálfun og öllu sem við kemur heilsu, bættum árangri og vellíðan.

Hvað er góð heilsa fyrir þér?

Fyrir mér er góð heilsa að líða vel í eigin skinni bæði andlega og líkamlega.

Átt þú þér fyrirmynd/ir hvað varðar heilsu?

Nei ég myndi ekki beint segja það kannski en ég hef samt lært alveg ótrúlega mikið af honum Nökkva Fjalari. Þá sérstaklega þegar kemur að því að gera litla hluti oft á dag til þess að sjá til þess að bæta í orkubirgðirnar og keyra sig ekki út.

Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til þess að lifa heilbrigðu lífi?

Það allra mikilvægasta fyrir mig er að fá nægan svefn. Ég reyni alltaf að sofa 8-9 tíma á hverri nóttu og ég finn að þegar ég geri það þá yfirleitt gengur allt annað mjög smurt fyrir sig. Ef ég sef ekki nóg þá er ég mun gjarnari að sækja í mat sem gefur mér ekki eins góða orku og hef síður orku til að hreyfa mig.

Hvað myndir þú ráðleggja 10 árum yngri þér?

Það kemur þér ekki nokkurn skapaðan hlut við hvað öðrum finnst um þig og það er allt í lagi að vera ekki fullkomin eða gera allt fullkomlega.

Hver er uppáhalds morgunmaturinn þinn og af hverju? Viltu deila “uppskrift” með lesendum?

Ég hef þetta bara einfalt á morgnana og fæ mér hreint múslí með ávöxtum, berjum og kakódufti út í jógúrt. Einfalt og gott og klikkar aldrei.

Morguverður Ásdísar


Hráefni
  • 75 gr ávaxtamúslí
  • 1 matskeið kakóduft
  • 100 gr frosin blönduð ber sem við þýðum yfir nóttina
  • 220 gr ávaxtajógúrt án viðbætts sykurs
Aðferð

Allt sett í skál og notið í botn!

Áttu þér uppáhalds mottó/quote?

Winners never quit, quitters never win

Þetta mottó hefur fylgt mér síðan ég var unglingur.

Hefur sýn þín á heilsu eitthvað breyst eftir að hafa fengið Covid?

Hún hefur svo sannarlega gert það og hafandi alltaf verið mjög hraust og heilbrigð og örsjaldan veik af einhverju viti þá held ég að ég hafi tekið minni heilsu kannski aðeins of mikið sem sjálfsögðum hlut. Algjörlega óafvitandi að sjálfsögðu en það var aldrei spurning fyrir mig hvort ég ætti að hlaupa um eða lyfta þungum hlutum heldur bara hversu mikið á ég að gera af því. Eftir að hafa verið svona svakalega veik svona lengi þá kann ég miklu betur að meta það sem ég hef og finn fyrir mun meira þakklæti fyrir allt sem líkaminn minn leyfir mér að gera. Ég mun líka svo sannarlega halda áfram að passa eins vel upp á hann og ég get.