logo
HeilsuErla
Heilsumolar
Heilsumoli með HeilsuGeiranum
13 / 04 /2021
deila
HeilsuGeirinn - Geir Gunnar Markússon

Næsti viðmælandi er enginn annar en Geir Gunnar Markússon eða HeilsuGeirinn. Hann er ein af mínum heilsufyrirmyndum því að hann setur heilsuna í fyrsta sæti og honum er mjög annt um heilsu annarra. Leiðir okkar hafa legið saman nokkrum sinnum um æfina en mér er það sérstaklega minnistætt þegar hann var með dóttur sína í ungbarnasundi hjá mér. Þegar við vorum að syngja Fiskalagið skelltum við upp úr....því annar hét Gunnar og hinn hét Geir, þeir voru pínulitlir báðir tveir. Enn í dag verður mér stundum hugsað til HeilsuGeirans þegar ég syng lagið. Hann er fullur af fróðleik og ég mæli með því að þið fylgið honum á Instagram.

Hver er HeilsuGeiri?

Heilsugeirinn er Geir Gunnar Markússon. Ég er 45 ára, þriggja dætra faðir, giftur fjölskyldufaðir úr Hafnarfirði en er búsettur í Kópavogi. Ég er með mastergráðu næringarfræði og einkaþjálfarapróf úr Keili. Starfa i dag á Reykjalundi sem næringarfræðingur, er ritsjtóri heimasíðu Náttúrulækningafélags Íslands, og skrifa þar um öll mín hugaðarefni tengd næringu og heilsu. Einnig starfa ég þó nokkuð við að fræða landann um heilsutengd málefni með fyrirlestrum í fyrirtækjum, íþróttafélögum og skólum.

Hvað er góð heilsa fyrir þér?

Góð heilsa er þegar líkamleg, andleg og félagsleg heilsa er eins góð og hægt er með náttúrulegu líferni sem byggist á nægum svefni, reglulegri hreyfingu, hollri næringu og slökun.

Ég sé of oft í mínum störfum við heilsuráðgjöf að fólk einblínir oft á einn þátt heilsunnar t.d. þyngdina í kílónum en gleymir oft hlassinu sem hvílir á sálinni sem þarf líka að vinna með ná raunverulega góðri heilsu.

Átt þú þér fyrirmynd/ir hvað varðar heilsu?

Það er engin ein persónu sem kemur upp í hugann en ég hef í gegnum tíðina séð fullt af eiginleikum í fólki sem ég hef reynt að tileinka mér. Ef þú hefðir spurt mig að þessu fyrir 30 árum þegar ég var 15 ára hefði það líklega verið Arnold Schwarzenegger en með árunum hef ég sem betur fer þroskast og séð að heilsa er ekki bara hrikalegir vöðvar og lág fitupróseta.

Ég hef nýlokið störfum á Heilsustofnun í Hveragerði, eftir 8 ára starf þar og á þeim tíma hitti ég fullt af skjólstæðingum sem kenndu mér ótrúlega margt í því hvernig lifa skal heilsusamlegu lífi, bæði af þeim sem voru komin í óefni með heilsuna og líka af þeim sem voru enn eldhressir á níræðisaldri og voru frábærar fyrirmyndir.

Fyrirmyndir mínar eru heilbrigt fólk sem lætur ekkert stoppa sig í að lifa heilbrigðum lífsstíl t.d. með sínum daglega holla morgunverð, sundinu fimm sinnum i viku, jógað einu sinni í viku, fjallaganga um helgar og regulegir heilsusamlegir vinahittingar. Því það er ekkert sjálfsagt að vera með góð heilsu nú á tímum endalaus framboðs af óhollum mat, sjónvarps- og tölvuglápi, koffínneyslu, streitu og svefnleysis.

Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu fyrir góða heilsu?

Vá þetta er erfið spurning. Mér þykir vænt um að hafa alltaf haldið góðum og hollum morgunverði frá því að ég man eftir mér. Þetta hefur gefið mér þá orku sem ég þarf inn í daginn, finn að ég sækist síður í sætindi/kökur eins og margir og hef alltaf haldið kjörþyngd. Það eru margir „fræðingar“ á sviði næringar og heilsu sem hafa fordæmt mig fyrir morgunmatinn, sérstaklega núna undanfarin ár með sífellt vinsælli föstukúrum. Ég er því ótrúlega stoltur af því að hafa haldið morgunverðinum mínum og hann mun verða hluti af mínum lífsstíl þar til ég dreg síðasta andann.

Hreyfing er líka eitthvað sem ég tel að hafi skipt miklu máli fyrir að ég hef haldið góðri heilsu líkamlega og andlega. Ég er svo feginn að hafa kynnst mætti hreyfingarinnar á unga aldri og er enn að nýta mér hreyfingu til heilsueflingar á líkama og sál.

Hvað myndir þú ráðleggja 10 árum yngri þér?

Ég mundi ráðleggja honum að slaka meira á og temja sér t.d. reglulegar jóga-, hugleiðslu- og slökunaræfingar. Þetta hefur alltaf reynst mér erfitt í gegnum árin en eftir því sem ég eldist geri ég mér grein fyrir því að slökun er einn að grunnum heilbrigðs lífernis. Nútímalíferni er mjög stressandi og slökun er eitthvað sem gleymist oft í erli dagsins.

Hver er uppáhalds morgunmaturinn þinn og afhverju?

Uppáhalds morgunverður minn hefur alla tíð verið gamli góði hafragrauturinn. Ég hef aðeins pimpað hann upp í gegnum árin og hér er uppskriftin af honum:

Uppskrift – Geiragrautur


Hráefni
  • 1 ½ dl haframjöl
  • 3 dl vatn
  • 10-15 stk. möndlur
  • 1 msk. kókosflögur
  • 1 tsk. chiafræ
  • 1 msk. fræblanda úr Costco (Linwoods, mulin hör-, sólblóma-, graskers- og sesamfræ)
  • ½ niðurskorið epli
  • 1 tsk. kanill
Aðferð

Hitið vatnið og haframjölið og bætið chiafræjum í. Að því loknu er hafragrauturinn settur í skál og öllum hinum innihaldsefnunum bætt við. Ef grauturinn er of þykkur eða heitur er fínt að bæta við smá mjólk og smá rjómi er eðal um helgar. Þessi máltíð er ekki fullkomnuð fyrr en ég hef fengið mér einn góðan gúlpsopa af lýsi. Þetta er skammtur fyrir frekar aktífan karlmann. 1 dl haframjöl er líklega hæfilegur skammtur fyrir flesta.

Áttu þér uppáhalds mottó?

„Lífið verðlaunar þá sem gefast ekki upp“

Er eitthvað annað sem þig langar að segja eða koma á framfæri?

Berum ábyrgð á eigin heilsu, það gerir það enginn fyrir okkur.