logo
HeilsuErla
Heilsumolar
Heilsumoli með Helgu Möggu
15 / 07 /2021
deila
Helga Magga macros og heilsa

Heilsumolinn að þessu sinni er engin önnur en Helga Margrét Gunnarsdóttir eða Helga Magga eins og hún er ávallt kölluð. Helga Magga er ,,heilsugúru" af lífi og sál og deilir hollum og góðum uppskriftum og öðrum fróðleik á heimasíðu sinni.

Þeir sem þekkja hana eru vafalaust sammála mér um að það geislar af henni heilbrigði og gleði og hún er algjör fyrirmyndarmamma. Við deilum þeirri àstríðu að vilja styðja einstaklinga í átt að bættu heilsufari og vellíðan.

Hver er Helga Margrét Gunnarsdóttir?

Helga Magga er þriggja barna móðir með brennandi áhuga á öllu sem við kemur heilbrigðum lífsstíl. Hún æfir mikið og hefur fundið það af eigin raun hvað næring skiptir miklu máli fyrir æfingar og í lífinu öllu. Hún deilir með fólki á instagram síðunni sinni “helgamagga” hugmyndum af hollri næringu og hefur það að markmiði að peppa fólkið í kringum sig áfram, hvort sem það er að borða hollt, hreyfa sig eða gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni.

Hvað er góð heilsa fyrir þér?

Góð heilsa fyrir mér er að vera í góðu andlegu jafnvægi, geta hreyft sig og tekið þátt í lífinu laus við verki og veikindi. Ég vil geta legið í gólfinu að leika við börnin mín, farið út að hlaupa og hjóla með þeim eða spilað við þau fótbolta. Þau segja reyndar að ég sé hræðilega léleg í fótbolta, það er kannski eitthvað sem ég þarf að fara að vinna betur í.

Átt þú þér fyrirmynd eða fyrirmyndir hvað varðar heilsu?

Ekki sérstaklega en fylgist með mörgu heilsusamlegu fólki í nærumhverfi mínu og reyni að tileinka mér það besta frá öllum.

Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til þess að lifa heilbrigðu lífi?

Að hreyfa mig daglega í 30 mínútur, hvaða hreyfing sem er hvort sem það er út að hlaupa eða æfing í Mjölni, ganga eða bara að leika með krökkunum. Ef ég sé ekki fram á að koma æfingu inn í daginn minn reyni ég oft að sameina búðarferð með því til dæmis að hlaupa með barn í kerru í búðina, kaupa það nauðsynlegasta og hlaupa aftur heim eða labba.

Þegar hreyfingin helst inni hjá mér fylgir mataræðið alltaf með, mig langar bara í eitthvað næringarríkt eftir hreyfingu.

Hvað myndir þú ráðleggja yngri þér? (þ.e. hvað hefur lífsreynslan kennt þér sem þú vildir að þú hefðir vitað)

Hversu mikilvægt það er fyrir líkamlega og andlega heilsu að hreyfa sig og næra sig vel. Að byrja snemma að gera þetta að lífsstíl.

Hver er uppáhalds morgunmaturinn þinn og afhverju?

Ég verð að segja hafragrautur, þetta er máltíð sem klikkar aldrei. Svo fljótlegur og góður morgunmatur, góð orka sem endist mér lengi. Ég set yfirleitt 45gr haframjöl, 5gr chiia fræ, helli heitu vatni yfir og læt bíða í 5-10 mínútur á meðan ég er að græja mat fyrir börnin eða nesti. Svo set ég 25gr próteinduft með vanillubragði út í grautinn og blanda vel saman. Set svo annað hvort 50gr frosin bláber eða hindber eða bæði ofaná eða niðurskorið epli.

Nú ert þú með næringarþjálfun. Getur þú sagt lesendum aðeins frá því hvað það felur í sér að telja macros og hver ávinningurinn getur verið?

Næringarþjálfunin hjá mér snýst í stuttu máli um það að ég reikna fyrir þig macrosin þín/orkuefnin þín, það er hlutfall af próteinum, kolvetnum og fitu sem þú borðar yfir daginn. Þú borðar það sem þér finnst gott að borða og ég gef þér hugmyndir um hvernig hægt er að bæta næringuna þína. Fólk lærir alltaf mest á að spá sjálft í hlutunum, skoða hvað er kolvetnaríkt, hvað er próteinríkt og hvernig hægt er að fá fitu úr fæðunni í stað þess að vera mataður með matseðli frá þjálfara.

Ávinningurinn er fyrst og fremst að læra inn á næringuna sem við erum að borða. Fólk lærir að treysta því að með því að næra líkamann vel og borða nóg þá uppskerðu meiri orku, betri líðan, verður afkastameiri í lífinu og einnig á æfingum. Þetta er heilmikil vinna, sérstaklega til að byrja með. En það er nú eins með þetta eins og allt annað, árangur næst sjaldnast fyrirhafnarlaust.

Áttu þér Uppáhalds mottó/quote?

Komdu fram við náungann eins og þú vilt að hann komi fram við þig.

Eitthvað að lokum?

Nýlega opnaði ég heimasíðuna mína www.helgamagga.is þar sem ég deili næringarríkum og heilsusamlegum uppskriftum. Þetta eru uppskriftir sem henta fyrir alla og eru yfirleitt mjög macros vænar, sem þýðir einfaldlega það að það eru nokkuð jöfn hlutföll næringarefna í uppskriftunum. Á instagraminu mínu “helgamagga” er ég einnig að sýna hvað ég er að borða yfir daginn og gefa fólki góðar hugmyndir af næringarríkum mat sem hægt er að grípa í. Það er mikið að gera hjá mér á heimilinu með þrjú börn en með góðu skipulagi tekst mér samt yfirleitt alltaf að næra mig vel og sjá til þess að börnin geri það líka. Maðurinn minn er alveg á sömu línu og ég hvað næringuna varðar og það skiptir miklu máli að vera samstíga í þessu og vera góðar fyrirmyndir fyrir börnin okkar.