logo
HeilsuErla
Heilsumolar
Heilsumoli með Ólafíu Kvaran
14 / 08 /2021
deila
Ólafía Kvaran, Spartan Race, GreenFit

Ólafía er mögnuð kona og frábær fyrirmynd sem veit ýmsilegt um heilsu. Hún er hreystið uppmálað, er algjör orkubolti og varð til dæmis heimsmeistari í Spartan Race í sínum aldursflokki árið 2019.

Ólafía starfar hjá GreenFit þar sem hún ásamt samstarfsfólki sínu aðstoðar landann við að ná bestu mögulegu heilsu. Hjá Greenfit eru framkvæmdar mælingar sem gefa upplýsingar um heilsu og líkamsástand. Niðurstöður úr blóðprufu, hreyfimati og þrekprófi eru skoðaðar og þjálfarateymi útbýr næringar- og þjálfunaráætlun sem er sérsniðin að hverjum og einum og þeirra markmiðum.

Í viðtalinu fræðir Ólafía okkur um Spartan Race og segir frá mögnuðum árangri sínum auk þess að fræða lesendur um hvernig hægt er að hámarka heilsu sína.

Hver er Ólafía Kvaran?

Ég er 51 árs og á þrjá stráka eða eiginlega þrjá skemmtilega og góða unga menn (hlutlaust mat). Ég er hjúkrunarfræðingur og starfa í dag hjá Greenfit. Ég hef mikinn áhuga á hreyfingu og heilsu og allskonar útivist en alls ekki að sofa í tjaldi hahaha.  Ég hef gaman og gott af því að ögra sjálfri mér með því að vera tilbúin að prófa og gera nýja hluti.  Þannig læri ég alltaf eitthvað nýtt.

Hvað er góð heilsa fyrir þér?

Fyrir mér er góð heilsa að vera í góðu líkamlegu formi og andlegu og félagslegu jafnvægi. Ég segi alltaf ég vilji vera í formi fyrir lífið, með því er ég að meina að ég geti gert og tekið þátt í  öllu þessu skemmtilega og erfiða sem lífið hefur upp á að bjóða.


Átt þú þér fyrirmyndir hvað varðar heilsu?

Það er mikið af flottum fyrirmyndum á mörgum mismunandi sviðum sem ég lít upp til. Ég reyni að síðan bara að púsla því besta og áhugaverðasta saman frá hverjum og einum og vona að ég nái að tileinka mér eitthvað örlítið af þeirra hæfileikum í leiðinni.

Hvaða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til að lifa heilbrigði lífi.

Góður og nægur svefn er grunnatriði góðrar heilsu. Að vakna vel sofin og endurnærð og til í daginn gerir allt betra. Ég er einbeittari og orkumeiri og almennt skemmtilegri að vera í kringum þegar svefninn minn er í toppstandi. Ég reyni alltaf að ná að minnsta kosti 8 klukkustunda svefni. Vel sofin er ég hressari, þarf ekki skyndiorku yfir daginn, borða þar af leiðandi hollari mat, æfingin verður betri og svo framvegis. Þetta er einfaldlega keðjuverkun.

Ég borða líklega í kringum 80% hollan og næringarríkan mat. Ég borða það sem ég veit að mér líður vel af og gerir mér gott. Restin eða 20% er ís, ég er rosalega veik fyrir vanilluís með banana, kókósflögum og fjörmjólk, hrært saman í bragðaref.

Hvað myndir þú ráðleggja yngri þér?

Ég myndi ráðleggja sjálfri mér að fylgja hjartanu og hafa fulla trú á sjálfri mér.  Ekki láta álit annara hafa áhrif á þig. Ég myndi ráðleggja sjálfri mér að æfa mig í að gera hluti sem eru óþægilegir og erfiðir og eins til dæmis í mínu tilviki að tala fyrir framan hóp af fólki. Ég vildi að ég hefði pínt mig til þess fyrr á lífsleiðinni. 

Raðaðu fólki í kringum þig sem þér líður vel með og þar sem að þú getur verið þú sjálf/ur. Vertu alltaf þú sjálf/ur! Taktu séns í lífinu og áhættu. Það er allt í lagi að mistakast. Maður lærir af mistökunum.


Hver er þinn uppáhalds morgunmatur?

Ég hef ekki verið að borða morgunmat í nokkurn tíma. Ég fæ mér tvöfaldan espresso kannski 20-30 mínútum eftir að ég rúlla mér fram úr rúminu. Ef ég æfi á morgnana þá æfi ég á fastandi maga og það hentar mér mjög vel. 

Ef þú fengir ofurkraft í einn dag, hver yrði fyrir valinu og afhverju?

Time travel. Ég væri til í að geta ferðast fram og til baka í tíma. Mér finnst það hrikalega spennandi og sérstaklega ef ég hefði bara einn dag til afnota þá væri ég til í þennan ofurkraft. Einn dagur er síðan líklega of stuttur tími til að hafa áhrif á eða umbreyta slæmum atburðum í mannskynssögunni. Þessi stutti tími er ekki nægur til öðlast heimsfrið og jafnrétti, útrýma hungursneyð og fátækt. Þannig að ég myndi bara nota þennan dag til að hitta fullt af áhugaverðum og mögnuðum persónum úr fortíðinni. Ég myndi pottþétt skreppa aftur í Víkingaöldina og reyna að hitta á ýmsar hetjur þess tíma. Eins og vinina Njál á Bergþórshvoli og Gunnar á Hlíðarenda og auðvitað Hallgerði Langbrók. Síðan myndi ég vinna mig aftur til baka til 2021 með stuttum stoppum á öðrum markverðum tímum í mannkynssögunni og spjalla aðeins við áhrifavalda þess tíma. Ég myndi líka vilja kíkja aðeins inn í framtíðina, aðallega til að athuga hvort við séum ekki fara að fá eitthvað annað en bíla til að fara á milli staða, ég vil fara að losna við þetta umferðarvesen og helst bara fljúga á milli staða. Að lokum myndi ég fara og kíkja á næstu vinnings lottótölur og tryggja mér þannig smá vinning úr framtíðinni.

Áttu þér upphalds mottó?

Það er ekkert eitt uppáhalds mottó held ég.  Held að það sé mismunandi eftir því hvað ég er að fast við eða gera hversu sinni. Hér eru nokkur sem ég held upp á:

You only fail when you stop trying
Gerðu ALLTAF þitt besta!
Be kind
Kill them with kindness

er mottó sem hefur oft reynst vel þegar ég verð fyrir dónaskap eða æsing frá einstakling sem er illa stemmdur.


Getur þú sagt okkur frá Spartan Race?

Ég fór í mitt fyrsta Spartan Race haustið 2017 og kolféll fyrir þessu. Spartan Race eru utanvega hindrunarhlaup. Hindranirnar eru margs konar eins t.d. þungur burður með sandpoka, trédrumba, steina og fötur, allskonar apastigar, klifur, að skríða, kasta spjóti, synda, kafa, klifra í köðlum, koma sér yfir háa veggi og margt margt fleira skemmtilegt. Þetta fyrsta hlaup mitt gekk nokkuð vel og ég sá strax tækifæri til bætinga ef ég bara myndi kynna mér betur hvernig best væri að æfa fyrir Spartan hlaup. Þarna strax ákvað ég að henda mér í það verkefni. 

Árið 2018 fór ég tvær ferðir til New York og Boston og náði mér í Spartan SGX þjálfararéttindi. Þar með var ég komin með nokkur viðbótar verkfæri í hendurnar til að vinna með og bæta við Bootcamp æfingar og hlaupin mín. Þetta sama ár komst ég inn á heimsmeistaramótið og lenti í 4. sæti. Ég var mjög sátt með það en líka pínu svekkt eftir á að hafa ekki náð á pall þegar ég sá að ég var ekki langt frá því. Næsta markmið var því klárt strax þarna og það var að mæta aftur ári seinna og komast á verðlaunapall. Markmiðið náðist heldur betur því að ég vann minn aldursflokk og varð heimsmeistari árið 2019. Vegna heimsfaraldursins var Spartan Race heimsmeistarmótið 2020 ekki haldið og því ekki tækifæri til að verja titilinn. Ég nota auðvitað hiklaust þetta tækifæri og held áfram í titilinn, Covid 19 er því ekki alslæmt.

Í júlí síðastliðnum náði ég að skjótast til Ítalíu og keppa í Spartan hlaupi og vann minn aldursflokk. Það var æðislegt að komast og máta sig aðeins aftur inn sjá hvar ég stend því vonandi verður hægt að halda heimsmeistaramót 2021.