logo
HeilsuErla
Heilsumolar
Heilsumoli með Sigurjóni Erni Sturlusyni
03 / 07 /2021
deila
Heilsumoli með Sigurjóni Erni

Sigurjón Ernir Sturluson er einn af öfl­ug­ustu hlaup­ur­um landsins og það er einstaklega gaman að fylgjast með honum á Instagram þar sem hann er dug­leg­ur að sýna fylgj­end­um sínum frá æf­ing­um og keppn­um. Sigurjón er grænkeri, veit ýmislegt um föstur, heilbrigt mataræði og þjálfun og deilir oft visku sinni á samfélagsmiðlum.

Sigurjón Ernir er stofnandi, eigandi og yfirþjálfari hjá Ultraform og er einstaklega hvetjandi og góð fyrirmynd þegar kemur að heilsutengdum málefnum. Í heilsumola vikunnar deilir hann með okkur frábærum atriðum sem þarf að hafa í huga til þess að lifa heilbrigðu lífi og setja heilsuna í fyrsta sæti.

Hver er Sigurjón Ernir?

Sigurjón Ernir er íþróttafræðingur, eigandi og yfirþjálfari í UltraForm sem er lítil líkamsræktarstöð í Grafarholtinu. Ég er Ultrahlaupari, hlaupaþjálfari, kærasti og faðir lítillar stelpu og mikill áhugamaður líkamlegrar jafnt sem andlegrar heilsu.


Hvað er góð heilsa fyrir þér?

Góð heilsa fyrir mér er að geta hreyft þig út frá hentusemi og komist í gegnum þína daglegu rútínu án mikilla erfiðleika og líða vel andlega jafnt sem líkamlega.


Átt þú þér fyrirmynd/ir hvað varðar heilsu?

Ég er ekki með einhverja eina fyrirmynd hvað varðar heilsu, ég er með ýmsa aðila sem mér þykir gaman að fylgja eftir og tek lærdóm frá þeim sem ég get yfirfært yfir í mitt líf og bætt mína heilsu.


Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til þess að lifa heilbrigðu lífi?

Það er án efa að setja súrefnisgrímuna á sjálfan þig áður en þú ferð að aðstoða aðra. Það eru alltof margir sem gleyma að huga almennilega að eigin heilsu áður en þau fara að aðstoða fólk sem stendur þeim næst.

Svefn er númer 1,2 og 3. Ég reyni að ná 7-8 klst svefni á hverri nóttu. Ég stunda 16/8 föstu og borða öllu jafna ekki fyrr en eftir hádegi. Ég fer í ísböð, stunda reglulega hreyfingu og vel heilsusamlegt matarræði.

Besta venjan þegar öllu er á botnin hvolft er að stressa sig ekki á hlutum sem þú stjórnar ekki og stressa sig ekki á því sem þú þarft ekki að stressa þig yfir. Þ.e. að reyna að lifa eins rólegu lífi og mögulegt er.


Hvað myndir þú ráðleggja yngri þér? (þ.e. hvað hefur lífsreynslan kennt þér sem þú vildir að þú hefðir vitað)

Úff góð spurning, það væri sennilega að treysta sjálfum þér betur og standa með þínum ákvörðunum þó þær geti ýtt þér út fyrir þægindarammann.


Hver er uppáhalds máltíðin þín og afhverju?

Máltíðin á myndinni er sennilega vinsælasta máltíðin mín þesssa dagana og með þeim betri. Hér erum við með orkumikið salat með góðum fitum og próteingjafa ásamt því að vera ríkt af trefjum. Þessir þættir eru mér mjög mikilvægir þegar kemur að heilsusamlegu mataræði samhliða föstum sem ég stunda alltaf reglulega.

Skálin inniheldur oftast Edamame baunir, bygg, tófu, avocado, tómata, kál, vínber og kasjúhnetur. Stundum líka hrærð egg og avocado dressingu.


Nú ert þú mikill hlaupari, hver eru þín helstu ráð til þeirra sem langar að byrja að hlaupa sér til heilsubótar?

Að er hlusta á líkamann og fara ekki beint í sama pakka og vanur hlaupari. Ef þú ert ekki vanur að hlaupa þá er galið að fara að hlaupa 30-40-50 km á viku þegar þú ert að byrja. Byrjaðu mjög rólega og hugaðu að því að hafa fjölbreytni í æfingum samhliða stíganda í æfingaráætlun.


Áttu þér Uppáhalds mottó/quote?


With great power comes great responsibility

Við erum alltaf fyrirmynd fyrir fólk sem stendur okkur næst, börnin okkar og fleiri til. Það er mjög mikilvægt að þú sért að endurspegla þau gildi sem þú vilt koma á framfæri.

Er eitthvað annað sem þig langar að segja eða koma á framfæri?

Þínir stærstu sigrar ættu alltaf að snúast um að sigra sjálfan þig (æfingar, dagleg rútína, líkamsímynd, mataræði og keppnir), hættum að setja standardinn út frá öðru fólki. Þetta á það til að gleymast hjá ansi mörgum.