logo
HeilsuErla
Heilsumolar
Heilsumoli með Unnari Helgasyni
05 / 05 /2021
deila
Unnar Helgason þjálfari og eigandi Unleash Training

Unnar Helgason er stofnandi og eigandi Unleash Training og hefur á sínum langa og farsæla þjálfunarferli þjálfað margt af okkar besta afreksfólki í íþróttum. Auk þess að vera frábær þjálfari er Unnar jákvæður og skemmtilegur fjölskyldumaður sem veit ýmislegt um heilsu.

Áhugasamir geta fylgt Unnari á Instagram @unnarh og @unleashtraining og fundið upplýsingar á glæsilegri heimasíðu www.unleashtraining.co

Hver er Unnar Helgason?

Ég er 39 ára gamall, tveggja og hálfs barna faðir og tvöfaldur ská afi. Ég er uppalinn í Hafnarfirði og einn af sex systkinum.

Ég fékk snemma áhuga á hreyfingu og vissi alltaf að ég hafði meiri áhuga að líkamlegu hliðinni á íþróttum heldur en sjálfri keppninni og sat oft og horfði á íþróttir, en ekki endilega til þess að sjá hvernig leikurinn fór heldur til þess að átta mig á hvaða líkamlegu eiginleika íþróttinn krafðist.

Síðustu 12 ár hef ég verið viðloðandi CrossFit íþróttina og hef stofnað þrjár CrossFit stöðvar.

Ég er í dag búsettur í Svíþjóð þar sem ég er klára þriðja árið í Osteopatíu við Osteopathögskolan í Gautaborg. Samhliða því rek ég fyrirtækið mitt UNLEASH sem býður upp á þjálfunarprógram sem hefur verið í þróun síðustu 5 ár. Hjá UNLEASH er ég einnig með nokkra íþróttamenn sem hafa það af atvinnu að stunda sína íþrótt sem ég þjálfa One-on-One.

Hvað er góð heilsa fyrir þér?

Góð heilsa snýst um jafnvægi nokkurra þátta sem í mínum huga mynda grunninn að heilsu. Svefn, öndun, næring, hreyfing og félagsleg tengsl eru undirstöðuatriði heilsu. Svo er það persónubundið hvar áherslan á að vera út frá þörfum og væntingum hvers og eins einstaklings.

Átt þú þér fyrirmynd/ir hvað varðar heilsu?

Ég á mér ekki beint fyrirmyndir sem slíkar, en ég leita eftir fróðleik frá mörgum mismunandi aðilum um þjálfun og heilsu almennt t.d. Pavel Tsatsouline, Chris Sommer, Marcus Filly og fleiri aðila.

Á persónulegum nótum þá er það fjölskyldan mín sem veitir mér innblástur til að sinna heilsunni minni. Konan mín Helga Hlín er dæmi um manneskju sem býr yfir mikilli elju og staðfestu til að ná langt, Úlfhildur og Arnhildur dætur mínar eru mér miklar fyrirmyndir, Jordan var alltaf minn maður í gamla daga og svo er gaman að fylgjast með David Goggins – en hann er einn harður gæi!

Nú vinnur þú mikið með afreksfólki í íþróttum, hver finnst þér vera grundvallarmunurinn á ráðleggingum um heilsu til þeirra annars vegar og almennings hins vegar?

Það eru nokkrir hlutir sem mér finnst skipta mestu máli og það er t.d. að ef þú ætlar að ná langt í íþróttum þá þarftu að vera íþróttamaður allan daginn, 7 daga vikunnar, 365 daga ársins. Allir ákvarðanir þurfa að vera teknar út frá því hvort það sem þú ert að fara að taka þér fyrir hendur hverju sinni - styðji við markmiðið þitt um að ná langt í þinni íþrótt - og það krefst augljóslega mikilla fórna. Svo hugsa ég mun meira um að þjálfa upp mismunandi líkamlega eiginlega hjá afreksfólki út frá þeirra íþrótt s.s. Sport Specific.

Atvinnuíþróttir yfir höfuð eru ekki það allra heilsusamlegasta sem þú getur gert enda er „Intensity level“ atvinnu íþróttamanna hærra, því markmiðið er alltaf að hann/hún geti skilað sínu allra besta á keppnisdegi. Þegar maður þjálfar íþróttamenn er einnig mikilvægt að átta sig á eiginleikum viðkomandi íþróttar og einnig hvernig tímabilið hans/hennar er sett upp. T.d. getur bardagamaður fengið kall um að berjast 2-4 vikum fyrir bardaga en í fótbolta ertu með undirbúningstímabil og lengra tímabil.

Þegar kemur að þjálfun almennings þá finnst mér mikilvægt að huga að heilsunni á breiðum grunni s.s. ekki bara líkamlegu hliðinni heldur einnig að veita fræðslu um svefn, öndun og mataræði. Fjölbreyttar æfingar sem bæta liðleika, jafnvægi, kraft og þol eins og t.d. CrossFit standa upp úr að mínu mati. Síðast en ekki síst er algert grundvallaratriði að hreyfing á og þarf að vera áhugaverð og skemmtileg og ég legg mikið upp úr því í minni prógrammeringu hjá UNLEASH.

Hvaða venja eða venjur sem þú hefur tamið þér myndir þú segja að væru þær mikilvægustu til þess að lifa heilbrigðu lífi?

Ég hef tamið mér nokkrar grunnreglur og ég skipti þeim í raun í hugarfarslegar og daglegar venjur. Þessar hugarfarslegur venjur kalla ég Gildi og reyni að segja þau við mig á hverjum degi:

Ég er jákvæður

Ég hreyfi mig

Ég geri mistök og læri af þeim

Ég set fjölskylduna mína í fyrsta sæti

Aðrar venjur stjórnast síðan svolítið af gildunum mínum. Ef ég t.d. hreyfi mig er líklegra að ég nái 8 góðum tímum í svefn og mataræðið styðji við hreyfinguna. Ef ég er jákvæður þá er líklegra að ég læri af mistökunum sem ég geri í stað þess að fara í niðurbrot og svo framvegis.

Hvað myndir þú ráðleggja 10 árum yngri þér?

Ég myndi segja sjálfum mér að lesa meira og virkja forvitnina.

Hver er uppáhalds morgunmaturinn þinn og afhverju?

Þar sem ég fasta yfirleitt fram yfir hádegi borða ég ekki morgunmat. En það fyrsta sem ég borða mjög oft er All-Bran með banana, bláberjum og rúsínum, ein teskeið af hnetusmjöri og prótein hafradrykkur út á. Solid blanda.

Áttu þér uppáhalds mottó/quote?

„Alltaf að gera eitthvað“

er innri mantran mín um að gera alltaf eitthvað á hverjum degi til þess að hlúa að heilsunni. Það þarf ekki alltaf að vera mikið, en alltaf eitthvað.

Er eitthvað annað sem þig langar að segja eða koma á framfæri?

Já, það er að ef fólk vill huga að heilsunni þá eru einföldustu ráðin oftast best t.d. að huga að gæðum og lengd svefns er eitt besta „megrunarmeðalið“ - og að fasta reglulega kemur jafnvægi á insúlínið í líkamanum sem hefur hvað mest áhrif af þyngdina okkar.