logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
Hugaðu að heilsunni á tímum Covid
24 / 03 /2021
deila
Hugaðu að heilsunni

Á óvissutímum eins og við höfum upplifað á síðastliðnu ári er eðlilegt að finna fyrir smá kvíða þar sem að aðstæður eru ansi streituvekjandi. Í slíkum aðstæðum er mjög mikilvægt að huga að því sem við getum stjórnað eða haft áhrif á í okkar eigin lífi og reyna að hafa ekki áhyggjur af því sem við stjórunum ekki. Við þurfum að búa okkur til rútínu og hafa eitthvað fyrir stafni.

Hverju getur þú stjórnað?

Svefn

Pössum okkur að snúa sólarhringnum ekki við, mjög mikilvægt að fara að sofa á svipuðum tíma á hverju kvöldi. Við ættum að sofa 7-9 klst. á nóttu. Ef við sofum vel verður allt annað mikið auðveldara.

Hreyfing

Þá er mög mikilvægt að hætta ekki að hreyfa sig. Á tímum sem þessum er hreyfing alveg gríðarlega mikilvæg, bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu og því mikilvægt að taka frá 30-90 mínútur daglega til þess að hreyfa sig. Nýtið náttúruna, farið í gönguferðir, út að hlaupa eða upp á fjöll. Gerið æfingar heima, t.d. jóga og styrktaræfingar en það má finna ógrynni af alls konar heimaæfingum á netinu þessa dagana.

Hreyfing er eitt besta „meðalið“ sem við höfum gegn streitu og kvíða og svo hafa margar rannsóknir sýnt að hreyfing hefur jákvæð áhrif á ónæmiskerfið.

Næring

Það er alltaf mikilvægt að nærast vel, bæði andlega og líkamlega. Sinnið áhugamálum, hringið í vini, talið við þá í gegnum snjalltækin. Hvort sem við erum í einangrun, sóttkví eða bara að virða samkomubann þá megum við ekki einangrast. Nýtum tæknina!
Við þurfum líka að huga að því að borða hollan og góðan mat því þannig líður okkur betur og styrkjum einnig ónæmiskerfið.