logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
Hvað er raddheilsa?
29 / 10 /2021
deila
Raddheilsa

Hvað er raddheilsa?

Í pistli dagsins kynnumst við mikilvægu málefni sem ég tel að sé mjög þarft að skapa umræðu um, nánari tiltekið raddheilsu. Forsendur góðrar raddheilsu er að talfærin séu frísk og að röddin sé notuð á réttan hátt en röddin er jú atvinnutæki margra og því mikilvægt að hlúa vel að henni alla ævi.

Síðastliðið vor sat ég fyrirlestur um raddheilsu hjá Valdísi Ingibjörgu Jónsdóttur sem hefur í áraraðir frætt landann um málefnið. Fyrirlesturinn var mér algjör vitundavakning og þegar mér bauðst að sitja stutt námskeið hjá henni í síðasta mánuði þurfti ég ekki að hugsa mig tvisvar um. Á námskeiðinu fengum við fræðslu um talfærin og uppbyggingu þeirra, gagnlegar upplýsingar um raddbeitingu, hvað geti skaðað röddina og lærðum leiðir til þess að koma í veg fyrir raddvandamál.

Ég verð að viðurkenna að mér var brugðið við að uppgötva þekkingarleysi mitt og fannst ég knúin til að miðla þessum mikilvægu upplýsingum áfram til lesenda heilsuerlu.is. Það eru nefnilega ótrúlega mörg atriði sem þarf að hafa í huga t.d. líkamsstaða, raddbeiting, upphitun, gæði lofts, hávaði, vatnsdrykkja, hljóðvist, þekkingarleysi og margt fleira.

Valdís tók vel í það að svara nokkrum spurningum og ég hvet áhugasama til þess að skoða heimasíðu hennar, rodd.is. Þar má finna fróðleik um raddheilsu, viðtöl og frábært myndband með æfingum sem mikilvægt er að gera daglega til þess að fyrirbyggja álag á talfærin. Einnig langar mig að benda á bókina Talandandinn, er hann í lagi? sem Valdís gaf út og er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Þar má finna svör við því hvað getur farið úrskeiðis í rödd, framburði og framsetningu máls. Bókin fæst hjá Eymundsson og Bókaútgáfunni Hólum.

Hver er Valdís Ingibjörg? 

Valdís I. Jónsdóttir er menntaður grunnskólakennari, heyrnar- og talmeinafræðingur með mastersgráðu (M.Phil frá Strathclyde University; Glasgow 1996) og doktors- gráðu (PhD frá Tampere í Finnlandi, 2003) í rödd og raddumhirðu (voice ergonomics). Hún hefur unnið síðan 1974 við talkennslu bæði í skólum og á eigin stofu og frá 2003 sinnt raddþjálfun. Auk þess hefur hún sinnt ýmsum rannsóknum á röddum kennara þar sem niðurstöður hafa verið birtar hérlendis sem erlendis og verið með fyrirlestra um rödd. Valdís hefur um áratugaskeið barist fyrir því að auka þekkingu á mannsröddinni og hversu viðkvæmt og dýrmætt vinnutæki hún er.

Hvað er raddheilsa? 

Í raun er rödd skynjun. Það er ekki farið með bíl í viðgerð vegna þess að hljóðið sé bilað, heldur vegna þess að hljóðið bendir til að eitthvað sé að vélinni. Eins er það með röddina. „Biluð rödd“ bendir til þess að eitthvað sé að í tal- og raddfærakerfi líkamans. Rödd er skynjun og afrakstur af flókinni starfsemi í radd- og talfærum. Þannig getur eitthvað í vöðvakerfi tal- og raddkerfis gefið sig með þeim afleiðingum að raddböndin vinna ekki eðlilega og þar með gefur röddin sig.

Hverjar eru helstu orsakir slæmrar raddheilsu? 

Sennilega liggur mest af vandanum í almennu þekkingarleysi á hvernig raddmyndun á sér stað. Raddveilueinkenni eins og óeðlilegur þurrkur í munni, erting, ræskingaþörf, kökktilfinning í hálsi, þrálátt hæsi og raddbrestir er oft rakið í hugum fólks til annars en misbeitingu á tal- og raddfærakerfinu. Vitanlega segir það sig sjálft að sé gengið fram af vöðvunum sem sjá um eðlilega raddmyndun þá hlýtur það að hafa afleiðingar. Það getur verið gott að hafa eftirfarandi í huga: 

  • Röddinni eru takmörk sett. Hún berst því ekki eins vel og manni finnst sjálfum. 
  • Það er eðlislægt að hækka róminn í takt við aukinn hávaða en þar með spennast upp vöðvar sem stjórna barkakýli og setja hreyfifrelsi raddbanda í uppnám. 
  • Þar sem við öndum gegnum munn þegar við tölum er mikilvægt að muna að raddböndin eru í öndunarveginum og geta fengið í sig óheilnæm efni úr umhverfinu eins og ryk og gufur frá hættulegum efnum. 

Hvaða starfsstéttir eru í „mestri" hættu? 

Kennarar sitja þar í efstu sætum enda býður eðli starfsins – svo og óvistvænar kringumstæður eins og að tala lengi - að tala í hávaða og að tala í of mikilli fjarlægð frá áheyrendum. Opnu skólarnir eru hvað verstir hvað þetta snertir því fjöldinn skapar mikinn erilshávaða (hávaði sem stafar frá fólki). Hins vegar eru sérstaklega íþróttakennarar og leikskólakennarar í mikilli hættu vegna eðli starfs og starfsaðstæðna. Það má benda á það að í raun eru allar atvinnustéttir þar sem einstaklingar þurfa að tala lengi og jafnvel í mishollu andrúmslofti (við drögum loft í gegnum munn þegar við tölum og setjum þar með slímbúskap raddfæranna í uppnám) í hættu með að fá raddveilur. Þar má t.d. finna þingmenn og fjölmiðlafólk útvarps og sjónvarps.

Ef einstaklingur finnur fyrir þreytu í talfærum eftir vinnudag, á hverju er best að byrja til þess að koma í veg fyrir neikvæðar afleiðingar? 

Það sem vantar er fræðsla í fyrsta lagi að koma í veg fyrir yfirkeyrslu á rödd sem getur orðið bæði í tali og söng. Ekki ófáir tenórar og sópranar sem hafa þanið röddina of mikið án þess að hafa þekkinguna að ekki sé talað um poppsöngvara. Öskur er eitt af því sem ALLS ekki má stunda. Það rífur í raddböndin og getur skemmt þau, EN vegna þess að það er ekkert sársaukaskyn í raddböndunum sjálfum þá getur sársauki ekki varið fólk við. Vill einhver fara úr skóm og sparka í vegg?? Af hverju ekki? Af því að því fylgir sársauki.

Að lokum langar mig að benda á kennslumyndband og æfingar sem munu gagnast öllum.