logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
Mars hugleiðingar- Afhverju er svona erfitt að breyta hegðun?
04 / 04 /2022
deila
Hegðunarbreyting

Hver hefur ekki lent í því að vera á leiðinni á einhvern nýjan stað en gleymt sér í eigin þönkum og verið kominn heim eða í vinnuna/skólann. Við erum nefnilega oftast á ,,sjálfstýringu" í daglegu lífi. Við erum mjög vanaföst og flest sem við gerum í daglegu lífi þurfum við ekki einu sinni að hugsa um að gera, t.d. að ganga, bursta tennur, slökkva ljós, setja á okkur belti, borða og svo framvegis.

En afhverju er svona erfitt að breyta venjum og hegðun?

Frá örófi alda höfum við eða réttara sagt heilinn okkar verið þannig forritaður að hann velur nær alltaf auðveldustu/þægilegustu leiðina (The path of least resistance). Til þess að velja erfiðari leið þarf að taka ákvörðun. En það er ekki nóg að taka bara ákvörðun og láta þar staðar numið. Það krefst staðfestu og ákveðni að halda sig við ákvörðunina og búa til nýjar venjur.

Hegðunarbreyting er krefjandi og flókin vegna þess að hún krefst þess að einstaklingur trufli eða stöðvi núverandi hegðun eða vana og hlúi samtímis að nýjum, hugsanlega ókunnugum athöfnum. Þetta ferli tekur tíma, oftast lengur en við kærum okkur um. Hver kannast ekki við það að hafa ákveðið að breyta einhverju, t.d. að borða sykur eða fara að hreyfa okkur en svo strax daginn eftir fer allt í sama gamla farið áður en við áttum okkur á því.

Til þess að það sé líklegra að við náum að breyta hegðun okkar og venjum þarf ákvörðunin að vekja upp jákvæðar tilfinningar og við verðum að vita AFHVERJU við viljum breyta venjum okkar. Hver er ávinningurinn, bæði til langs tíma og skamms tíma?

Það er mikilvægt að spyrja sig hvaða áhrif mun það hafa að breyta hegðun/venju? Einnig þarf að spyrja sig hvaða áhrif það mun hafa ef ég breyti ekki hegðun minni/venjum?

Svarið við þessum spurningum gefur okkur vísbendingu um það afhverju ákveðin hegðun eða venja er ekki góð fyrir okkur og þá er auðveldara að taka ákvörðun um að breyta til betri vegar og líklegra að við séum staðfastari.

Hér að neðan eru fimm atriði sem gott er að hafa í huga þegar við viljum breyta hegðun okkar og/eða venjum. (Sjá einnig á Instagram)

  1. Hugsaðu frekar um að bæta inn góðum venjum en að taka þær slæmu út. Góðu venjurnar munu smám saman taka yfir og þær venjur sem þú telur ekki lengur gagnast þér munu fjara út.
  2. Bættu inn einni venju í einu og þegar hún hefur festst í sessi getur þú bætt inn annarri og svo koll af kolli og áður en þú veist af ertu búin/n að ná markmiði þínu.
  3. Mundu að góðir hlutir gerast hægt! Vertu þolinmóð/ur. Til þess að breytingar verði varanlegar er mikilvægt að þær gerist hægt og rólega.
  4. Ef þú átt erfitt með að festa nýja venju í sessi er gott ráð að tengja nýju venjuna einhverju sem er nú þegar í rútínu þinni, t.d. ef þú vilt byrja að taka vítamín er gott að gera það alltaf áður en þú burstar tennurnar eða ef þú vilt.
  5. Tímaskortur? Átt þú erfitt með að breyta venjum, t.d. að koma inn hreyfingu? Þá er frábært ráð slá tvær flugur í einu höggi. Fara í göngutúr á meðan þú hlustar á fréttir í stað þess að liggja upp í sófa og horfa á þær. Einnig er ráðlagt að fara í göngutúr á meðan þú spjallar í síma eða hlustar á hlaðvarp/hljóðbók.
Það er aldrei nægur tími til að gera allt... en það er alltaf nægur tími til að gera mikilvægustu hlutina. -Hyrum Smith