logo
HeilsuErla
Reynslusögur
Reynslusaga Bjargar
30 / 03 /2021
deila
Mynd

Þegar ég ákvað að hafa samband við Erlu heilsumarkþjálfa var ég ekki á góðum stað. Bitur, neikvæð, einangruð, miðaldra kona sem hafði svo óþægilega tilfinningu um að hápunkti lífsins væri líklega löngu náð og allt yrði niður á við hér eftir. Kona sem leitaði huggunar í mat og fór ekki út úr húsi því að henni fannst hún vera bæði ófríð og óspennandi. Ég saknaði mikið stelpunnar sem ég var; litrík, hláturmild, ævintýragjörn og jákvæð. Stelpunnar sem elskaði að hitta vini, ferðast og upplifa alls konar hluti sem gáfu henni kitl i magann.

Á þessum tímapunkti var annað hvort að leita hjálpar eða sleppa takinu á stelpu sem ég mögulega var ekki lengur og leggjast þá án efa í þunglyndi. Ég var samt ekki vongóð um að mér tækist að ná mér uppúr þessu því þetta var mögulega bara enn eitt krafsið í bakkann sem myndi mistakast hjá mér. Ég fann þó að mér þótti alltof of vænt um stelpuna sem ég var, til að kveðja hana alfarið og það var það sem ýtti mér til Erlu.

Ég fann Erlu á netinu og við tókum heilsumarkþjálfun í 6 mánuði, alfarið á netinu í gegnum WhatsApp. Það má eiginlega segja að Erla hafi byrjað á því að taka mig rafrænt í fangið og láta mig vita að þetta yrði allt í lagi. Svo tók við markviss vinna næstu 6 mnuði þar sem við hittumst í tölvunni aðra hverja viku. Ég ákvað þegar ég hafði samband við Erlu að ég myndi verða gegnheil í þessari vinnu. Klára verkefnin og mæta alltaf undirbúin í spjallið. Til að ég héldi mér við efnið þessar tvær vikur, þá skrifaði ég stundum niður hugleiðingar sem ég sendi henni í tölvupósti sem hún svaraði og við ræddum svo betur þegar við heyrðumst. Ég vissi að ef ég myndi ekki taka þetta 100%, yrði ég enn óánægðari með sjálfa mig og skurðurinn sem ég var að reyna að komast uppúr, yrði enn dýpi.

Erla var í stuttu máli einstakur og ómetanlegur stuðningur. Í fyrsta lagi smitaði hún frá sér aðdáunarverðum lífskrafti og gleði og ég fann fljótlega mikla þörf að finna þennan kraft líka hjá mér. Hún lagði áherslu á að bæta lífið í hænuskrefum en ekki ætla sér of mikið. Minnti mig á að hlusta á líkamann, klappa mér á bakið og þykja vænt um mig eins og ég væri. Hjálpaði mér að setja ný og spennandi markmið sem myndu færa mig nær þeirri litríku og lífsglöðu manneskju sem ég vildi vera. Minnti mig á að þykja vænt um líkamann og hjálpaði mér tína inn litlar heilsusamlegri venjur í stað þess að fókusa á boð og bönn. Við ræddum líka um félagsfælni, líkamsvirðingu, þakklæti, sambönd, fjölskylduna, spennandi podcöst og í raun allt milli himins og jarðar því eins og Erla segir, er regluleg hreyfing og góð næring bara tveir þættir af mörgum sem stuðla að heilbrigðu lífi.

Í dag er ég á allt öðrum stað en ég var í upphafi heilsumarkþjálfunar. Auðvitað eru ekki allir dagar sólarmegin en þeir eru miklu fleiri en þeir voru. Ég leyfi líka dimmu dögunum að koma og fara, ég veit að þeir skilgreina ekki lífið og ég veit að ég er með réttu verkfærin til að fækka þeim. Ég hef sett mér þrjú lífsgildi og tek ákvarðanir og set mér spennandi markmið í samræmi við þau. Ég hef mótað 15 heilsuvenjur sem henta mér og gera mig að heilbrigðari einstaklingi til framtíðar. Þar þykir mér vænst um litlu morgunmarkmiðasetninguna sem hefur hjálpað mér ótrúlega að stíga rétt inn í daginn. Ég brosi meira og hitti meira fólk. Ég hef meira sjálfstraust, hef meiri áræðni í vinnu og núna hef ég aftur trú á því að ég eigi litríkt og spennandi líf framundan.