Í fréttum fyrir stuttu var tekið viðtal við vegfarendur og þeir spurðir hvort að þeir strengdu áramótaheit. Ég hjó eftir því hversu margir svöruðu því neitandi og sögðu ástæðuna vera þá að þeir höfðu svo oft sett sér markmið fyrir árið en alltaf orðið fyrir vonbrigðum vegna þess að markmiðin náðust ekki. Síðan þá hefur þetta verið að veltast um í kollinum á mér því að það er ekki gott að fólk forðist það að setja sér markmið af ótta við að mistakast. Því það getur nefnilega verið mjög gagnlegt og haft jákævð áhrif á heilsuna að setja sér markmið ef þau eru hæfileg og unnið er að þeim jafnt og þétt.
Hvað er þá til ráða?
Ég tel besta ráðið vera að læra að setja sér raunhæf markmið og hvernig hægt er að brjóta þau niður í smærri einingar. Sem heilsumarkþjálfi hef ég dágóða reynslu af því að aðstoða einstaklinga við að setja sér markmið og hvernig er best að fylgja þeim eftir. Markmið eru nefnilega frábær leið til þess að hafa að einhverju að stefna og hafa skýrari sýn á hvað er framundan. En það er mjög mikilvægt að við ætlum okkur ekki of mikið þegar við strengjum áramótaheit og gefumst upp áður en janúar er á enda.
Það er frábært að setja sér markmið ef þau eru raunhæf og við setjum okkur mörg smærri markmið sem leiða okkur á endanum að stóra langtíma markmiðinu. Svona eins og að gera fjársjóðskort til þess að finna fjársjóð. Það tekur tíma að læra að setja sér markmið og við þurfum að öðlast ákveðna færni og vera ÞOLINMÓÐ.
Hér eru fimm einföld ráð sem gott er að fylgja varðandi markmiðasetningu fyrir árið.
- Hugsaðu frekar um að bæta inn góðum venjum en að taka þær slæmu út. Góðu venjurnar munu smám saman taka yfir og þær venjur sem þú telur ekki lengur gagnast þér munu fjara út.
- Bættu inn einni venju í einu og þegar hún hefur festst í sessi getur þú bætt inn annarri og svo koll af kolli og áður en þú veist af ertu búin/n að ná markmiði þínu.
- Mundu að góðir hlutir gerast hægt! Vertu þolinmóð/ur. Til þess að breytingar verði varanlegar er mikilvægt að þær gerist hægt og rólega.
- Ef þú átt erfitt með að festa nýja venju í sessi er gott ráð að tengja nýju venjuna einhverju sem er nú þegar í rútínu þinni, t.d. ef þú vilt byrja að taka vítamín er gott að gera það alltaf áður en þú burstar tennurnar eða ef þú vilt.
- Tímaskortur? Átt þú erfitt með að breyta venjum, t.d. að koma inn hreyfingu? Þá er frábært ráð slá tvær flugur í einu höggi. Fara í göngutúr á meðan þú hlustar á fréttir í stað þess að liggja upp í sófa og horfa á þær. Einnig er ráðlagt að fara í göngutúr á meðan þú spjallar í síma eða hlustar á hlaðvarp/hljóðbók.
Það þarf oft ekki nema 5 mínútur á dag til þess að hafa jákvæð áhrif á heilsu okkar og skapa nýjar venjur. Ef þig vantar hugmyndir þá hvet ég þig til þess að skoða 5 mínútna verkefnin á Instagramsíðu Heilsuerlu bæði í færslum og í Highlites.