logo
HeilsuErla
Heilsupistlar
Leggðu daglega inn í heilsubankann
08 / 01 /2023
deila
Heilsubanki

Í upphafi árs dynja á okkur alls kyns upplýsingar um hvernig bæta megi heilsuna, bæði varðandi hreyfingu, matarræði og annað. En hvernig vitum við hvað er satt og rétt? Hverju eigum við að trúa? Hvað virkar og afhverju? Hvernig get ég gert varanlegar breytingar?

Hér eru 5 ráð frá HeilsuErlu sem gætu gagnast þeim sem eru í þessum hugleiðingum:

  1. Forðastu öfga
  2. Fækkaðu blóðsykursveiflum
  3. Leggðu daglega inn í heilsubankann þinn
  4. Finndu jafnvægi
  5. Minnkaðu streitu

1. Forðastu öfga

Forðumst töfralausnir og skyndilausnir. Ef eitthvað hljómar of gott til þess að vera satt þá er það einmitt of gott til þess að vera satt.

Það er mikilvægt að umturna ekki öllu í einu og ætla sér að gleypa heiminn í einum bita. Það er gífurlega mikilvægt að byrja smátt ef við viljum breyta einhverju varanlega og helst að velja sér aðeins eitt atriðið í einu til þess að einblína á.

Ég myndi til dæmis mæla með að byrja á því að koma svefninum í rútínu og fara að sofa á svipuðum tíma á hverju kvöldi. Um leið og svefn er orðinn nægur og við vöknum endurnærð á morgunana verður allt annað auðveldara.

Því næst er hægt að bæta inn hreyfingu smám saman. Ef þú hefur ekkert verið að hreyfa þig er ekki sniðugt að ætla sér um of. Þá er nóg að byrja á stuttum gönguferðum reglulega og auka smám saman vegalengdina og fjölda göngutúra í viku. Ef þú hefur aðeins verið að hreyfa þig en langar að taka hreyfinguna fastari tökum er skipulag og tímastjórnun besti vinur þinn. Veldu þér hreyfingu sem þér finnst skemmtileg og taktu frá tíma fyrir hreyfinguna. Skrifaðu niður hvenær þú ætlar að hreyfa þig. Ef þér finnst erfitt að koma þér af stað getur þú jafnvel skráð þig á námskeið og fundið þér æfingafélaga. Það getur skipt sköpum að hafa hvatningu frá öðrum í upphafi og einhvern sem veitir manni aðhald.

Þegar svefn og hreyfing eru komin inn í rútínuna er auðveldra að taka til í mataræðinu.

2. Fækkaðu blóðsykursveiflum

Ég hef nýlega lokið við lestur bókarinnar Glucose Revolution sem ég mæli með að allir sem hafa áhuga á að bæta heilsuna lesi. Þar er farið vel yfir hvernig við getum haft gríðarlega mikil áhrif á eigin heilsu með mataræði okkar og venjum. Það besta er að þetta eru engin geimvísindi og bókin er full af ráðum sem auðvelt er að tileinka sér smám saman. En aðal atriðið er að það eitt að fækka blóðsykursveiflum yfir daginn og halda blóðsykri stöðugum hefur gífurlega jákvæð áhrif á heilsu okkar og getur hjálpað okkur að losna við alls kyns einkenni eins og orkuleysi, heilaþoku, nartþörf, svefnleysi ofl. Hér getur þú lesið einfalda útskýringu á hvað gerist í líkamanum þegar við borðum og hvað veldur því að blóðsykur okkar hækkar.

Það fyrsta sem ég myndi ráðleggja þér að gera ef þú vilt bæta heilsuna með mataræði þínu er að einblína á fyrstu máltíð dagsins hvort sem að hún er kl.7 eða 12. Það sem við veljum að borða í morgunmat hefur gífurlega mikil áhrif á líðan okkar allan daginn framundan. Það er mikilvægt að velja sér mat sem heldur blóðsykrinum stöðugum, þ.e. veldur því ekki að blóðsykurinn rjúki upp því að ef það gerist þá máttu búast við ,,rússíbana“ allan daginn, orkuleysi, svengd, óþarfa narti ofl.

Þegar við höfum ekki borðað í langa stund er talað um að við séum fastandi og það fyrsta sem ,,kemur inn í kerfið" í því ástandi hefur áhrif í langan tíma.

Morgunmatur= breakfast=> break-fast = að brjóta föstu.

Áhugasamir geta fylgt Glucose godess á Instagram. En ráðin hennar eru efni í marga pistla og ég mun án efa deila eitthvað af visku hennar með ykkur fljóótlega.

3. Leggðu inn í heilsubankann daglega

Margir leggja til hliðar hluta af tekjum sínum og eiga þá varasjóð fyrir efri árin eða ef eitthvað kemur upp á. Ímyndaðu þér að það væri til Heilsubanki, ef þú leggur inn hann daglega áttu innistæðu fyrir óvæntum uppákomum, veikindum, áföllum eða öðru.

Ef við sinnum heilsu okkar daglega með því að nærast vel, líkamlega, andlega og félagslega erum við að leggja inn í okkar Heilsubanka. Það er mikilvægt að gera það smá á hverjum einasta degi en ekki bara í nokkrar vikur í janúar og september.

Við vitum flest hvað gerir okkur gott og hvað ekki en þekking er ekki alltaf nóg heldur þarf stöðugleika (consistency) til þess að sjá árangur og hámarka heilsuna.

Þó að við höfum þekkinguna þá er alltaf mikilvægt að leita sér aðstoðar ef við upplifum að við þurfum aðhald eða einfaldlega hjálp við að komast úr sporunum. Ég fór til dæmis sjálf í næringarþjálfun hjá Sigurjóni Erni vini mínum í Ultraform á síðasta ári og fékk það aðhald sem mig vantaði til þess að hrinda af stað breytingum og halda mig við þær. Á svipuðum tíma byrjaði ég að fylgja Glucose goddess á Instagram og hef nú nýlega lokið við lestur bókarinnar Glucose Revolution eins og ég nefndi hér áðan og ég fór að prófa mig áfram með alls kyns venjur til þess að líða betur og verða orkumeiri. Ég áttaði mig enn betur á því hvað daglegu venjur okkar skipta miklu máli. Ef við erum búin að leggja jafnóðum inn í heilsubankann í langan tíma þá höfum við efni á því að fara aðeins ,,út af sporinu" af og til.

4. Finndu jafnvægi

Þeir sem hafa fylgt mér vita að ég tala mikið um félagslega heilsu og hversu mikilvægt það er að gleyma henni ekki af því að hún er jafn mikilvæg og líkamlega og andlega heilsan okkar. Ef einhver þessara þriggja þátta er vanræktur upplifum við oft ójafnvægi. Við verðum að vega og meta aðstæður þannig að okkur líði sem best. Stundum föllum við í þá gryfju að bæta líkamlega og andlega heilsu á kostnað félagslegu heilsunnar. Við ætlum að bæta mataræði, svefn og hreyfingu svo mikið að við gleymum að sinna félagslegu heilsunni. Við hættum til dæmis að mæta í boð af því að þar er svo óhollur matur eða þá náum við ekki að fara snemma að sofa.

Þegar við finnum okkar jafnvægi upplifum við vellíðan og hvað er góð heilsa annað en vellíðan.


Heilsa er líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis það að vera laus við sjúkdóma og örorku (WHO, 1948).

5. Minnkaðu streitu

Nær allir þeir sem hafa komið til mín í Heilsumarkþjálfun á síðustu árum hafa talað um að hafa upplifað mikla streitu, sérstaklega tengt vinnu og streitan virðist vera rauði þráðurinn í því að fólk upplifi heilsuleysi eða að heilsan fari versnandi.

Það er því nauðsynlegt að fækka streituvöldum eins og mögulegt er. Nokkrar leiðir til þess að minnka streitu er að hreyfa sig reglulega, fá nægan svefn, stunda reglulega slökun eða hugleiðslu, rækta félagsleg tengsl, stunda þakklæti og fyrst og fremst ekki taka að sér of mörg verkefni nema vera viss um að ráða við þau. Ég hef sjálf fallið í þá gryfju að færast of mikið í fang og týndi heilsunni í smá tíma.

Það er ekki auðvelt að breyta gömlum venjum og mikilvægt að sýna sjálfum sér mildi og vera þolinmóður. Breytingar gerast smá saman og þá er mikilvægt að einblína á það sem við gerum vel.

Samantekt: 5 ráð HeilsuErlu inn í árið 2023:

  1. Forðastu öfga
  2. Fækkaðu blóðsykursveiflum
  3. Leggðu daglega inn í heilsubankann þinn
  4. Finndu jafnvægi
  5. Minnkaðu streitu